Pétur og Sigríður
"En við erum ekki í framtíðinni núna, við erum ekki einu sinni í nútíðinni. Við reikum um lendur fortíðarinnar. Við sjáum undarlega klætt fólk, undarleg tæki og tól, undarlegar byggingar. Allt er framandi, við erum í annarri veröld, öðrum tíma. En þetta fólk sem við sjáum er fólkið okkar, þaðan erum við komin. Við berum ættarmót þess, kannski hugsum við ekki ósvipað"
Matthías Pétursson, "Ábúendur í Skjaldabjarnarvík 1922-1935. Pétur Friðriksson og Sigríður Elín Jónsdóttir" Strandapóstur (33), 1999-2000.
Þessi heimasíða er minningakistill um afa og ömmu, líf þeirra og tilveru og er ætluð frændfólki. Hér er að geyma myndir og sögur af þeim og börnunum sex. Myndirnar koma víða að en frásagnirnar eru úr fórum Matthíasar með innskotum frá Jóhannesi og Friðrik, enda eru þeir allir góðir pennar og færir sögumenn. Frásagnir bræðranna hafa áður verið birtar í Strandapóstinum en eru hér klipptar, styttar og púslaðar svo þær henti betur því birtingarformi sem heimasíða er.
Elsa Guðmundsdóttir (elsa.gudmundsdottir@gmail.com)
Elsa Guðmundsdóttir (elsa.gudmundsdottir@gmail.com)
Pétur og Sigríður
Í minningunni verða þau ekki aðskilin. Þau eru eitt. Þau stóðu saman í blíðu og stríðu eins og þau hétu hvort öðru í upphafi búskaparsíns. Þau eignuðust sex börn og þeirra helsta áhugamál var að styðja þau til þess að afla sér þekkingar og menntunar, þeirrar menntunar sem þau sjálf höfðu ekki möguleika á.
(Friðrik í minningargrein um móður sína í Morgunblaðinu, 06.04.1984)
(Friðrik í minningargrein um móður sína í Morgunblaðinu, 06.04.1984)
Börn Péturs og Sigríðar
Guðmundur 1918 - 1960 fæddur í Hraundal
Guðbjörg 1920 - 2010 fædd í Hraundal Jóhannes 1922 - 2000 fæddur í Skjaldabjarnarvík |
Friðrik 1924 - 2009 fæddur í Skjaldabjarnarvík
Matthías 1926 fæddur í Skjaldabjarnarvík Jón 1929 - 1997 fæddur í Skjaldabjarnarvík |
Æskuár Péturs og Pétur sem ungur maður á Dröngum og í Ófeigsfirði
Hér að neðan er frásögn um æskuár Péturs og fyrstu skref hans sem ungur og sjálfstæður maður. Frásögnin er tekin úr grein Matthíasar Péturssonar "Ábúendur í Hraundal 1915 - 1922", Strandapóstur (32) 1998, og er textinn klipptur, styttur, skorinn og púslaður til að henta betur þessu birtingarformi.
|
Æskuár Sigríðar í Selinu í Bolungarvík og sem ung kona Hnífsdal
Frásögnin hér að neðan er úr grein "Sigríður Elín Jónsdóttir frá Reykjarfirði 90 ára" er Jóhannes skrifaði í Árnað heilla í Tímann 21.12.83 í tilefni af 90 ára afmæli hennar og úr minningargrein sem Friðrik skrifaði um móður sína "Sigríður Elín Jónsdóttir" í Morgunblaðið 06.04.1984. Textinn er klipptur, styttur, skorinn og púslaður til að henta betur þessu birtingarformi.
|
Pétur fæddist í Drangavík árið 1887
Drangavík, sunnan undir Drangaskörðum, er ekki stórbýli, túnið lítið, útengjar litlar og dreifðar og erfitt að afla heyja fyrir þær fáu skepnur er alla jafna voru þar á fóðrum. Faðir drengsins var ekki mikill fjáraflamaður, hann hugsaði meira um lestur bóka og veiðiskap, en að standa við slátt á lélegu landi í rysjóttri tíð. Það var því ekki auður í búi, þótt húsmóðirin reyndi, eins og húsmæðra er siður, að gera allt úr engu, enda varð oft að skammta smátt í þeim hörðu árum sem þá gengu yfir Ísland með hafís og vorkuldum.
Árið 1887, hinn 18. júní, fæddist hjónunum í Drangavík, þeim Friðriki Jóhannessyni og Guðbjörgu Björnsdóttur, sveinbarn, sem var vatni ausið og skírt Pétur. Ómegðin var mikil og börnin næstum því telja árin. Af níu börnum deyja þrú í frumbernsku, Jóhannes bróðir Péturs deyr 34 ára og Guðfinna systir hans deyr um þrítugt í Skjaldabjarnarvík 1908. Árið 1889 dundi svo ógæfan yfir fyrir alvöru er móðir hans lést af barnsförum og enginn lengur til að veita þá umhyggju sem ungum börnum er nauðsynleg. Tveggja ára gamall fer Pétur í fóstur að Dröngum og á þar heimili þar til hann var 26 ára gamall
Nú verður það fangaráð að hjónin að Dröngum, þau Guðmundur Pétursson og Jakobína Eiríksdóttir taka sveininn unga í fóstur á meðan sér verður hvernig mál þróast í Drangavík og er ekki í kot vísað. Drangar eru að norðanverðu við Drangaskörð og er það stórbýli frá fornu fari. Mikil hlunnindi, selveiði, æðavarp, mikill reki og stutt var í afar góð fiskimið. Þar ólst Pétur upp með börnum þeirra hjóna og er ekki annað að sjá en hann hafi fengið sama atlæti og þau. Víst er að hann tekur miklu ástfóstri við fóstra sinn sem hann kallaði svo og bar fyrir honum ómælda virðingu. Ekki er annað vitað en það hafi veri gagnkvæmt og að Guðmundur bóndi á Dröngum hafi reynt að tileinka drengnum heiðarleik og góða siði. Alla vega átti hann síðar á ævinni eftir að trileinka sér drengskap og hallaði aldrei réttu máli og vitnaði þá gjarnan í fóstra sinn.
Enn taka örlögin í taumana. Guðmundur fóstri Péturs veiktist og lá lengi heima, en fljótt var ljóst að hverju stefndi, að ekki yrði um bata að ræða. Þá kallar Guðmundur á fóstra sinn og biður hann um að sjá um búið með ekkjunni þar til börnin þeirra næðu aldri og þroska til að taka við. Þess hinstu bón varð að uppfylla, ekkert annað kom til greina. Þótt herðarnar væru enn veikburða og kraftarnir ekki stórir skyldi unnið að búinu eins og hann ætti það sjálfur. Guðmundur andaðist árið 1910, þá var Pétur 23 ára.
Árin liðu, börnin stækkuðu og búið á Dröngum dafnaði. Pétur vann því allt sem hann mátti undir handleiðslu ekkjunnar og uppeldisbróður síns, Finnnboga, og þeirra systkina Eiríks, Önnu og Steinunnar. Ekkjan þótti nokkuð stór í sniðum, eins og kvenna var háttur norður þar, enda veitti ekki af, því jafnvel á höfuðbólum mátti ekkert út af bregða svo öllu væri borgið í hörðum árum. En Pétur á þarna engan rétt, hann vinnur til að greiða fyrir uppeldið og uppfylla óskir fóstra síns. Fyrr en varði voru börnin vaxin úr grasi og fær um að taka við búinu. Verkefni hans var lokið og Finnbogi og Eiríkur hófu sameiginlegan búrekstur á Dröngum. Pétur gerist húsmaður í Ófeigsfirði árið 1913
Nú varð Pétur að sjá um sig sjálfur. Hann var orðinn 26 ára og hafði aldrei farið neitt að heiman. Ekki var hann þó alveg eignalaus, hafði komið sér upp nokkrum bústofni, þó mest af vinnunni hafi farið í að greiða fyrir uppeldið eins og gerðist í þá daga. Að Dröngum kom hann ómálga barn og sem ekki átti í önnur hús að venda, en nú villl hann ekki vera þar lengur, hugurinn stendur til að verða sinn eigin húsbóndi, ekki þjóna undir aðra.
Pétur bregður á það ráð að gerast húsmaður í Ófeigsfirði. Þangað flutti hann 1913 og var þá kominn með nokkurn bústofn, auk þess mun hann hafa haft nokkrar kindur í Skjaldabjarnarvík og var eigandi að tveim hundruðum, að fornu mati, í Skjaldabjarnarvík. Sem ungur maður lagði hann drög að framtíð sinni, en jarðnæðið vantaði og jarðir lágu ekki á lausu á þessum tíma. Að vera í húsamennsku var annað en að vera vinnuhjú. Húsmenn og húskonur búa hjá öðrum en eru annars sjálfum sér ráðandi. Húsmenn og húskonur greiddu ekki húsaleigu og fengu laun gjarnan greidd í kindafóðri. Þótti þetta betri kostur en að vera vinnuhjú. Fólk í húsamennsku gátu jafnvel haft smala og vinnuhjú sjálf ef þau fá góðar slægjur af bóndanum þar sem þau búa. (Ísafold, 04.08.1894., bls 196). (Þessi málsgrein er innskot frá ritstjóra) |
Foreldrar Sigríðar: Jakobína og Jón
Sigríður er fædd að Seli í Bolungarvík 10 nóvember, 1893.
Faðir hennar var: Jón Elíasson Ebenesarsonar hreppstjóri Rauðamýri Jónssonar Dyndjanda. Seinni kona Elíasar, móðir Jóns var Sólveig Bjarnadóttir bróðurdóttir Ásgeirs Ásgeirssonar útgerðarmanns á Ísafirði. Móðir hennar var: Jakobína Þorleifsdóttir Einarssonar hreppstjóri Bolungarvík Bjarna Snorrasonar Höfn. Móðir Jakobínu var Guðrún Bjarnadóttir af Rauðseyjarætt Breiðafirði. Jón og Jakobína áttu sex börn er upp komust. Þau bjuggu mestan sinn búskap að Seli í Bolungarvík á Ströndum. Þótt jörðin væri ekki stór búnaðist þeim vel. í Bolungarvík var tvíbýli, Selið þeirra Jóns og Jakobínu sunnan megin og bærin Bolungarvík norðan megin við víkina. Um tíma var tvíbýli á bænum Bolungarvík þegar bæði systir og bróðir Jakobínu bjuggu þar. Hornbjarg er í nágrenninu, þangað sóttu Bolvíkingar til eggja- og fuglatekju á vorin og áttu festi saman. Jón var fyglingur góður, gætinn og athugull. Seig hann í Hornbjarg til fjölda ára og hlekktist aldrei á sagt var að hann hræddist ekkert. Jón hafði mikið yndi af smíðum. Dvaldi hann löngum í smíðahúsi sínu. Smíðaði hann ýmis koman búhluti - fötur, byttur, bala, skálar, aska o.p.h. Handbragð smiðsins leynir sér ekki í smíðisgripunum. Allan smíðavið sinn vann hann úr rekavið. Jón var hægur í fasi en fastur fyrir, sívinnandi og góður sjómaður. Gestir sem bar að garði minntust þess hve fróur hann hafði verið og skemmtilegur í viðræðum. Jakobína var rausnar- og myndarkona sem lét að sér kveða og sagði sínar skoðanir umbúðalaust. Æskuár Sigríðar á Selinu
Sigríður óls upp hjá foreldrum sínum í hópi systkina og frænda, þar sem stutt var milli bæjanna í víkinni. Sigríður
minntist mjög oft á æskuheimili sitt. Einkum voru henni hugleiknar þær stundir
er hún sinnti bústörfum með föður sínum
og systkinum, og eins við að sinna kindum og heyskaparstörfum, en skýrastar af
æskuminningum hennar voru ferðir þeirra Bolvíkinga norður að Horni til eggja og
fuglatöku.
Tók hún þátt í bústörfum strax við aldur leyfði, jafnt karlastörfum sem kvennastörum eins og þá var títt að greina störfin, t.d. var hún allgóður sláttumaður. Fór hún með föður sínum og frændum á Hornbjarg og var á festi með þeim, fyrst 10 til 11 ára gömul og svo alla tíð meðan hún dvaldist í föðurhúsum. Þeir bændurnir í Bolungarvík, Finnbogi og Jón, áttu saman festi og fóru því árlega norður að Horni með festarlið sitt til eggjatöku. Farið var sjóleiðina frá Bolungarvík, fyrir Horn, inn á Hornvík og aðsetur haft hjá Hornabændum meðan á eggjatökunni stóð. Næsta dag eftir komuna að Horni var farið á fætur við rismál, ferðin upp á bjargbrún hafin og stefnan tekin austan við Kálfatinda, en það var staður Bolvíkinga. Jón gegndi um langt árabil því vandasamastarfi að vera sigmaður Bolvíkinga og fór honum það vel úr hendi því aldrei henti hann eða hans fólk neitt óhapp eða slys, svo sögur fari af. Dagur var að kveldi kominn og allar eggjaskrínur fullar af hinum eftirsótta og gómsæta mat, svartfuglseggjunum. Ferðin niður af bjargbrúninni var hafin. Það var erfiður og vandasamur flutningur að koma hinum dýrmæta feng heilum heim, en það var þess virði að leggja mikið á sig, því verklaunin voru mikil. Eggin færðu aftur roða í föla vanga barnanna og þau endurnýjuðu lífskraft hinna fullorðnu eftir hinn langa og dimma vetur norðursins. Þrátt fyrir erfiðið voru þetta ævintýradagar. Það gafst færi á samskiptum við margt fólk víðsvegar af landinu, bæði úr sveitinni og líka lengra að því skip leituðu oft inn á Hornvíkina í von um ný egg. Af brún Hornbjargs er víðsýni mikið til allra átta, hvít segl við hún, iðandi fuglaþvargið, fjöll í blámóðu fjarlægðarinnar, sólsetrið dýrðlegt við ysta haf. Töfrar Strandanna láta engann ósnortinn - svipmót og tign víðáttunnar í mikilleik sínum setur mark sitt á íbúa þessara staða ævilangt. Skólaganga Sigríðar
Skólaganga Sigríðar var ekki löng en þó ekki styttri en þá gerðist. Þar mun hafa verið haldinn skóli fyrir börn úr Grunnavíkurhreppi. Seinna, þegar Sigríður var um tvítugt, var hún svo um tíma við saumanán í Hnífsdal.
|
Pétur er háseti á hákarlaskipinu Ófeigi í tvö ár, 1913 - 1915 og kaupir hálfa jörðina í Skjaldabjarnarvík
Sem húsmaður í Ófeigsfirði hafði Pétur nokkuð frjálsar hendur og réði sig á hákarlaskipið Ófeig, sem var stærsta opna skipið er haldið var til hákarlaveiða frá Ströndum. Ófeigur var mjög þungur undir árum en þótti góður siglari. Honum var haldið til veiða síðla vetrar, róið út á Húnaflóa og legið fyrir stjóra. Túrinn gat tekið viku, enginn heitur matur og ekkert skjól. Ætluðu menn að sofa urðu þeir að kasta sér niður á splittina í sjóklæðunum og reyna að festa blund. Vosbúðinni og erfiðinu í þessum hákarlalegum verður ekki með orðum lýst fyrir nútíma fólki. Versnaði veður, sem oft vildi verða, urðu menn oft að liggja það af sér því ekki þótti alltaf fýsilegt að leita lands. Voru þá hafðir menn á stjóranum til að slaka á honum eða draga hann inn til að verja skipið áföllum. Það var líkast til árið 1914 sem farið var að hafa eldstó á Ófeigi, sem búinn var til úr járntunnu, og sagði Pétur að það hefðir verið bylting að geta fengið heitt kaffi á sjónum.
Pétri tóks með elju og vinnusemi að safna í sjóð og keypti hálfa jörðina í Skjaldabjarnarvík, þó hann hafi valið að flytja í Hraundal þegar hann ákvað að hefja líf sem sjálfstæður bóndi.
Pétri tóks með elju og vinnusemi að safna í sjóð og keypti hálfa jörðina í Skjaldabjarnarvík, þó hann hafi valið að flytja í Hraundal þegar hann ákvað að hefja líf sem sjálfstæður bóndi.
Tvær greinar um hákarlaveiðar á Ófeigi
Til þess að gera okkur niðjunum betur grein fyrir því hvað fólst í því að stunda hákarlaveiðar, þá eru birtar hér að neðan tvær greinar. Önnur fjallar um hákarlaveiðar á Húnaflóa og hin um hákarlaskipið Ófeig. Greinarnar eru fengnar að láni af heimasíðu Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna (klikkið á nafni safnsins til að fara inn á heimasíðu þess)
Varla myndum við sem nú lifum kalla Ófeig skip, því fyrir okkur er þetta frekar lítill bátur, en á þessu "skipi" sigldu þeir til hákarlaveiða. Níu til tólf manns voru um borð og lágu þeir úti fyrir opnu hafi í marga daga í senn og stundum í meira en viku. Þetta var vinna fyrir hrausta menn, að búa í litlum bát dögum saman í leit að hákarli, elta hann uppi, veiða hann á stóran krók og draga hann á eftir "skipinu" á land. Það er því ekki furða að minningar frá þessum tíma hafi verið Pétri huglægar síðustu æviár hans og að hann hafi endurtekið minningabrot af hvalveiðum fyrir gesti og gangandi í Efstasundi.
Varla myndum við sem nú lifum kalla Ófeig skip, því fyrir okkur er þetta frekar lítill bátur, en á þessu "skipi" sigldu þeir til hákarlaveiða. Níu til tólf manns voru um borð og lágu þeir úti fyrir opnu hafi í marga daga í senn og stundum í meira en viku. Þetta var vinna fyrir hrausta menn, að búa í litlum bát dögum saman í leit að hákarli, elta hann uppi, veiða hann á stóran krók og draga hann á eftir "skipinu" á land. Það er því ekki furða að minningar frá þessum tíma hafi verið Pétri huglægar síðustu æviár hans og að hann hafi endurtekið minningabrot af hvalveiðum fyrir gesti og gangandi í Efstasundi.
Hákarlaveiðar á Húnaflóa
![]() Fengið að láni af heimasiðu Byggðasafns Húnvetninga
og Strandamanna 19.10.2012.
Textinn er birtur óbreyttur og myndirnar eru líka þaðan fengnar Hákarl hefur að líkindum verið veiddur hér við land frá landnámi. Á 17. og 18. öld jukust hákarlaveiðar um allt land vegna aukinnar eftirspurnar og hækkunar á verði á lýsi. Varð þetta talsverð búbót fyrir bændur og gert var út frá fjölda verstöðva um allt land. Hákarlalýsið var flutt út til Evrópu og m.a. notað í götulýsingu stórborganna. Í Strandasýslu og Húnavatnssýslu var gert út á hákarl frá mörgum bæjum og verstöðvar voru nokkrar. Á seinni hluta 19. aldar var Gjögur í Árneshreppi ein stærsta hákarlaverstöð landsins þar sem eingöngu var veitt á áraskipum. Á fyrrihluta sömu aldar voru Hafnir á Skaga helsta hákarlaútverið í Húnavatnssýslu. Þegar leið á öldina færðust þær veiðar að Kálfshamarsvík og Skagaströnd. Að róa í hákarl Að róa í hákarl kallaðist að fara í hákarlalegu eða -setu. Doggaróðrar voru dags- eða sólahringsróðrar á grunnmið og var þá allur hákarlinn hirtur. Í skurðarróðrum var aðallega lifrin hirt, en búknum yfirleitt hent. Í slíkum legum var siglt mun dýpra og róðrarnir gátu jafnvel orðið 7-10 sólarhringa langir. Handvaður var elsta og algengasta veiðarfærið við hákarlaveiðar. Lagvaður var algengur á 18. og 19. öld. Keflavaður er ein tegund af lagvað. Hákarlabeitan var oftast hangið hrossakjöt, saltað selspik eða heilir selkópar. Yfirleitt var beitan látin liggja í rommi og úldna í nokkurn tíma því hákarlinn er talinn mjög lyktnæmur. Hákarlaskipið Ófeigur Hákarlaskipið Ófeig lét Guðmundur Pétursson (f. 1853, d. 1934) bóndi og formaður í Ófeigsfirði smíða fyrir sig veturinn 1875. Þá var hann aðeins 22 ára og nýlega tekinn við búskap í Ófeigsfirði. Yfirsmiður var Jón Jónsson (f. 1819. d. 1883) frá Krossnesi. Ófeigur er það sem kallast tíróinn áttæringur og eru ræðin úr tré, átta á hvorum borðstokk. Ófeigur var smíðaður fyrir hákarlaveiðar á úthafinu og var haldið úti alls 38 hákarlavertíðir, þá síðustu árið 1915, en fram til 1933 var hann hafður til viðarflutninga. Hákarlavertíðin stóð síðari hluta vetrar og var áhöfn skipsins í legunum 9-12 mans. Oft var legið úti dögum saman. Það var ekki fyrr en seint á 19. öld sem Guðmundur í Ófeigsfirði byrjaði á því að hafa eld um borð og hita þar kaffi og mat. Útbúnaður til þeirrar eldamennsku var þó mjög ófullkominn. Varakeðjan eða drekakeðjan var hringuð niður á annan pittinn og þar yfir settur pottgarmur, eldurinn síðan látinn koma í pottræksnið og ketillinn eða matarpotturinn settur yfir. Ekki var þetta sældareldstó við að fást í misjöfnu veðri, en þó mikil framför frá því sem áður var. Ekki var um neinar reglubundnar máltíðir að ræða á sjónum, heldur tók hver sér bita, þegar hann lysti, því að allir höfðu mat fyrir sig í kofforti, kistli eða skrínu. Sagt er að Guðmundur í Ófeigsfirði hafi alltaf haft með sér tvær flöskur af koníaki í hákarlalegur á Ófeigi. Annarri var skipt er fengist hafði fullur lifrarkassi miðskips, en hinni á leið í land. |
Hákarlaskipið Ófeigur![]()
Fengið að láni af heimasiðu Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna 19.10.2012.
Textinn er birtur óbreyttur og myndirnar eru líka þaðan fengnar Hákarlaskipið Ófeig lét Guðmundur Pétursson (f. 1853, d. 1934) bóndi og formaður í Ófeigsfirði smíða fyrir sig veturinn 1875. Þá var hann aðeins 22 ára og nýlega tekinn við búskap í Ófeigsfirði. Yfirsmiður var Jón Jónsson (f. 1819, d. 1883) frá Krossnesi. Sagt er að Jón hafi smíðað byrðinginn með aðstoðarmönnum á hálfum mánuði en Ófeigur er allur smíðaður úr rekaviði. Jón lærði hvergi skipasmíði en smíðaði nokkuð af bátum og er haft eftir dóttur hans að þeir Guðmundur munu hafa ráðið öllu um lag og smíði skipsins. Nagla alla og rær (ferhyrndar) smíðaði Guðmundur sjálfur í smiðju sinni. Fyrstu seglin á skipið voru einnig unnin heima í Ófeigsfirði úr íslenskri ull, fóru í þau 100 álnir vaðmáls. Ófeigur er það sem kallast tíróinn áttæringur og eru ræðin úr tré, átta á hvorum borðstokk. Ófeigur er hringlotaður og svipar laginu mjög til breiðfirska bátalagsins. Stefnin ganga langt undir skipið og hefur það því varið sig vel undir stjóra. Ófeigur er afar sterklega byggður, þykkviðaður og þéttbentur og mikið burðarskip. Var honum og ætlað að standast erfiða sjósókn á opnu hafi í hákarlalegum á útmánuðum vetrar. Einnig var hann notaður til flutninga, en sagt er að um borð hafi rúmast 55 tunnur lifrar (120 lítra) eða um 7 lestir. Skipið var þungt undir árum og því sjaldan róið nema til og frá landi, en ávallt siglt ef kostur var. Í skipinu er aðeins eitt mastur sem var reist og fellt með talíum. Seglin eru tvö rásegl, hið neðra nefnt stórsegl, en hið efra fokka og er það mun minna. Í botni Ófeigs eru lifrarstíur sem væru teknar burt þegar skipið var notað til viðarflutninga og annars. Dælur voru um borð tvær, önnur framan við næst fremstu þóftu og hin framan við öftustu þóftu og tvö austurtrog. Þegar skipið var notað til flutninga var dælunum komið fyrir þar sem best hentaði. Súðarborðin voru blaðskeytt og skeytisnöglum hagað eftir því. Skorarnaglar voru með 15 cm. millibili án tillits til staðsetningar bandanna. Endanaglar í hverju bandstykki voru hnoðnaglar, en aðrir bandanaglar voru reknaglar. Höfuðbönd (reiði) voru gerð úr tjörukaðli, var þeim krækt í þar til gerðar lykkjur, sem festar voru utan á efstu borðin og borðstokkinn. Þegar mislengdir komu fram á köðlunum, var snúið upp á þá eða ofan af þeim eftir því sem með þurfti, vegna hæfilegrar lengdar. Kaðlarnir voru um 2" ummáls. Forstagur var enginn við reiðastall. Ekki var notuð vinda (spil) til að setja Ófeig, en setningstalíunni krókað í spillykkju framan í stefninu. Í hákarlalegum sat ræðarinn á kassa sem stóð á pallinum. Kompás var í skipinu og eldunaráhöld. Af þessari gerð voru þau hákarlaskip sem til veiða gengu á Ströndum á síðustu öld. Má og ætla, að Ófeigur sé að flestu leyti góður fulltrúi íslenskra skipa af stærra tagi, eins og þau tíðkuðust hér öldum saman. Hákarlavertíðin stóð síðari hluta vetrar, og var áhöfn skipsins í legunum 9-12 manns. Oft var legið úti dögum saman. Guðmundur í Ófeigsfirði byrjaði á því að hafa eld um borð og hita þar kaffi og mat. Útbúnaður til þeirrar eldamennsku var þó mjög ófullkominn eða í aðalatriðum þannig, að varakeðjan eða drekakeðjan var hringuð niður á annan pittinn og þar yfir settur pottgarmur, eldurinn síðan látinn koma í pottræksnið og ketillinn eða matarpotturinn yfir eins og á hlóðir. Ekki var þetta sældareldstó við að fást í misjöfnu veðri, en þó mikil framför, frá því sem áður var. Eigi var um neinar reglubundnar máltíðir að ræða á sjónum, heldur tók hver sér bita, þegar hann lysti, því að allir höfðu mat fyrir sig í kofforti, kistli eða skrínu. Sagt er að Guðmundur í Ófeigsfirði hafi alltaf haft með sér tvær flöskur af koníaki í hákarlalegur á Ófeigi. Annarri var skipt er fengist hafði fullur lifrarkassi miðskips, en hinni á leið í land. Ófeigi var haldið alls 38 hákarlavertíðir, þá síðustu árið 1915, en fram til um 1935 var hann hafður til viðarflutninga. Voru þá lifrarkassarnir teknir úr honum, hann fylltur af rekaviði og dreginn af vélbáti. Eftir þetta lá skipið á hvolfi í Ófeigsfirði. Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði og systkin hans gáfu Þjóðminjasafni Íslands Ófeig 1939 og á árunum 1939-41 fóru fram viðgerðir á skipinu á vegum Þjóðminjasafns og Péturs í Ófeigsfirði, sonar Guðmundar. Ófeigur var fluttur að Reykjum í Hrútafirði vorið 1961 en þar hafði þá verið reistur skáli sérstaklega undir skipið. |